20.2.2007 | 22:49
ég er rekin ...
...áfram af dótturinni með æfingaleyfið, hún spurði; ertu búin að blogga eitthvað í dag mamma mín?, og horfði á mig með fallegu bláu augunum sínum svo full af trausti, von og hvatningu. Ég get ekki hugsað mér að valda henni vonbrigðum...
En á gríns þá var hér elduð baunasúpa að eldgömlum hætti (allavega eldri en karl faðir minn sem er fæddur '35 á síðustu öld) fullur pottur með kraumandi baunum með lauk, beikoni,gulrótum og gulrófum og fullt af saltkjöti sérvöldu úr kjötborðinu í Verslun Einars Ólafssonar á Akranesi. Súpan rann ljúft niður.
Í morgun þegar húsmóðirin kom niður hafði sá sorglegi atburður gerst að dauðsfall hafði átt sér stað, sonurinn á tvær páfagaukastelpur og hafði hún Mjallhvít verið eitthvað furðuleg undanfarna daga og hafði hann samviskulega beðið Guð að lækna hana. Hún var fjarlægð úr búrinu og vafin í mjúkan eldhúspappír og pabbinn fékk kassa sem verður notaður sem kista á morgun þegar Mjallhvít verður lögð til hinstu hvílu, pabbinn er prestur svo hann sér um athöfnina sem fer fram í garðinum á morgun. Drengurinn tók fréttunum furðuvel miðað við ...hann sannfærðist fljótt um að nú væri Mjallhvít komin til Jesú og það væri hún orðin skjannahvít á nýjan leik og væri að fljúga hjá Jesú, hvað barnshjartað er einlægt og hreint. Svo spurði hann hvort hún myndi þekkja hann þegar hann kæmi til Jesú þegar hann væri orðinn gamall.
Nokkrum mínútum seinna var ég svo send að gá hvort Zorro búningurinn væri komin en svo var ekki þannig að hann verður riddari með sverð og skjöld. Nú berst hann við dreka, ófreskjur og slær systur sína 8mánaða til riddara.
Fór á bíltúr með ökunemanum og hún stendur sig með stakri prýði. Vikan er að verða hálfnuð og styttist í helgina og þá kemur Áslaugin mín til okkar, hlakka til. Öskudagsstuð á morgun með yngstu kynslóðinni svo verður Mjallhvíti vottuð hinsta virðing okkar. Blóm og kransar afþakkaðir..
Athugasemdir
ahh og ég ætlaði að senda minningakort enn flott hjá þér velkominn í heim blogg- vera kv. putti
puttalingurinn (IP-tala skráð) 23.2.2007 kl. 20:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.